Skip to Main Content
site header image

Listaverk í Þjóðarbókhlöðu: 2. hæð

Yfirlit yfir listaverk í Þjóðarbókhlöðu

Mannsandinn

Mannsandinn: Fortíð–Nútíð–Framtíð, eftir Leif Breiðfjörð (1945- ).

Steint gler, gert í tilefni af opnun Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns í Þjóðarbókhlöðu 1994.

Í bók Aðalsteins Ingólfssonar Leifur Breiðfjörð: steint gler, 1995, segir:

Þar er um myndþrennu að ræða er nefnist Mannsandinn: Fortíð-nútið-framtíð, þrjú höfuð, hvert á eigin stalli eða grísk-rómverskri súlu, og vísar hvert þeirra til tímabils í Íslandssögunni.

Lágmynd - Jón Árnason

Jón Árnason 1819 eftir Helga Gíslason (1947- ).

Lágmynd úr bronsi, staðsett í anddyri safnsins. Verkið var afhljúpað á þann 7. september 2020 í tilefni að 200 ár voru liðin frá fæðingu Jóns Árnasonar (1819-1888) landsbókavarðar og þjóðsagnasafnara.

Án titils

Glerverk án titils eftir Gunnlaug S. E. Briem (1948- ).

Verkið á að sýna mörkun leturflatar í miðaldahandriti. Gunnlaugur bjó sjálfur til letrið sem er úr gulli, en textinn er úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Glermyndin var gerð í tilefni af opnun Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns í Þjóðarbókhlöðu 1994.

Án titils

Málverk án titils eftir Kristján Davíðsson (1917-2013).

Abstrakt málverk gert fyrir opnun Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns í Þjóðarbókhlöðu 1994.

Orðin og víðáttan

Orðin og víðáttan, Rommet og Ordene (1977), veggteppi eftir norsku listakonuna, Synnöve Anker Aurdal (1908-2000).

Tillaga kom fram árið 1971 um að Norðmenn gæfu Íslendingum gjöf í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar og byggingu nýs bókasafns. Listakonan Synnöve vildi að Ísland og Noregur mættust í verkinu. „Sameiginlegar erfðir, saga og bókmenntir yrðu að komast til skila ... norsk og íslensk menning ofin saman mörgum þráðum, sýnilegum og ósýnilegum“. (Viðtal í Ritmennt, 1, 1996, s. 134). Hún hafði í huga himininn og hreyfingar hafsins á milli landanna og leiðir skáldskaparins. Tilvitnanir í bókmenntir beggja þjóða eru ofnar í teppið. Synnöve lauk við teppið árið 1977.

Tilvitnanirnar eru:

Heilög vötn hlóa (Grímnismál)

Og fegurðin mun ríkja ein (Heimsljós)

Vi går og göymer bort ein gud som gneistar gjennom alt (Tor Jonsson)

Maður er manns gaman (Hávamál)

11. september 1978 var Orðin og víðáttan afhent við hátíðlega athöfn í Þjóðminjasafni Íslands.Teppið var í hátíðasal Háskóla Íslands þar til það var hengt upp í Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni skömmu fyrir opnun safnsins 1. desember 1994.“

Silfra

Silfra eftir Helga Gíslason, f. 1947.

Höggmynd úr bronsi, staðsett í anddyri safnsins. Verkið er frá 1992 og er nefnt eftir gjá á Þingvöllum. Það er gjöf frá Háskóla Íslands til safnsins 1994.

Eylendur

Eylendur, myndverk eftir bandaríska listakonu, Jean Larson, f. 1955.

Myndir eftir Jean Larson voru á sýningu í safninu árið 2012. Verkið er byggt á ljósmyndum sem teknar voru á Vestfjörðum.